31.10.08

Drottinn blessi heimilið

Drottinn blessi heimilið er gömul og gild kveðja sem prýtt hefur íslensk heimili um áratugi. Ég tók mig til og útbjó nútíma útgáfu af setningunni með letri sem minnir á gömlu útsaumsmyndirnar. Stafirnir verða til sölu í Epal og fást í tveimur litum, dökkgráum og gulli. Þetta er tilvalin jólagjöf -íslensk hönnun og framleiðsla. Ekki veitir af blessuninni á vorum dögum.

29.10.08

Heimatilbúnar jólagjafir

Nú er um að gera að taka upp saumavélina og hendast í jólagjafaframleiðslu. Hér koma tvær hugmyndir af jólagjöfum fyrir ungabörn.

28.10.08

Fiducia

Ég kom við í Saltfélaginu í dag og sá þá að blómavasinn hennar Louisu Campbell, Fiducia (sem ég minntist á hér) voru þar á 65% afslætti !! Þannig að ef maður hefur einhverntíma verið að spá í hann, þá er tækifærið núna. Hann er semsagt á rúmar 8 þúsund í stað 24.000 króna. Ansi freistandi ... þó það sé kreppa.

Potence frá Vitra

Einn af mínum uppáhalds lömpum er Potence sem Jean Prouvé hannaði árið 1950. Hann er svo einfaldur en um leið ofboðslega fallegur - færi t.d. alveg ljómandi vel hér í stofunni.

27.10.08

Manhattan

Þessi fína íbúð er á Manhattan og í henni búa hjón með tvö börn. Ég veit engin frekari deili á þeim en þau eiga allavega mikið af fínu dóti.

Fjölnota sultukrukkur

Hér er jólagjöfin komin: ódýr, umhverfisvæn og mjög svöl. Þetta eru 5 mismunandi lok sem nota skal á glerkrukkur (undan sultunni, tilbúnu sósunum og barnamatnum) og þannig færðu nýtt sett undir sósur, olíur, kanilsykurinn og bara hvað sem er. Og verðið er líka gott - aðeins 2200 kr. í Epal.

25.10.08

Minna en tveir mánuðir til jóla !

Jóla-BoligLIV kom í búðir nú fyrir helgi, voða fínt að vanda. Þar er m.a. innlit hjá Annette Egholm sem er textílhönnuður og eigandi Fabric Copenhagen. Hún býr í Charlottenlund með tveimur börnum sínum, 6 og 8 ára. (Stílísering var í höndun Anette Eckmann hjá Eckmann Alive og ljósmyndari Bjarni B. Jacobsen.)

Möppufuglar

Og talandi um hilluskraut þá eru þessir fuglar líka algjörar dúllur. Tilvalin jólagjöf fyrir möppudýr. Fást í Epal-Liborius, Laugavegi.

21.10.08

+d

Ég rakst á þessi dýr á japönsku heimasíðunni, +d. Þau koma sér örugglega vel við skipulagningu heimilisbókasafnsins eða geisladiskasafnsins. Djassinn gæti t.d. byrjað hjá gíraffanum eða íslensk tónlist þar sem svínið gægist fram ...

18.10.08

265

265-lampinn frá Flos var hannaður árið 1973 af Paolo Rizzatto. Hann er svolítið plássfrekur og passar ekki hvar sem er (yfir 2 metrar á lengd) en mér finnst hann mjög flottur!

Kreppukoja

Hér er frábær hugmynd fyrir þá sem ætla að leggjast í barneignir í kreppunni. Með svona koju má koma 3 börnum fyrir í einu litlu herbergi! Og þetta er ekki bara praktískt heldur líka feikilega smart.

Gult - bland í poka

Nagel kertastjakar

Nagel kertastjakarnir voru mjög vinsælir hér á árum áður. Þeir voru framleiddir í Þýskalandi og komu á markað 1968-69. Mamma mín átti þrjá stjaka og eina skál en svo hef ég fundið svona einn og einn til að bæta við safnið - þess má geta að ég sit voða stillt og prúð við hlið stjakanna á fyrstu jólakortamyndinni frá 1969. Ég mun áfram hafa augun opin, því ég væri alveg til í nokkra í viðbót ... en ég stefni samt ekki á 218 stykki eins og neðri myndirnar sýna. Það væri græðgi!

17.10.08

Barnaveggfóður og límmiðar

Ferm LIVING er danskt fyrirtæki sem framleiðir m.a. límmiða á veggi og veggfóður. Nú í haust komu þeir með nýja barnalínu sem mér líst afar vel á. Sirka á Akureyri selur þessar vörur eins og svo margt annað skemmtilegt.