31.8.08

Meira um Saarinen-borðið

Það virðast fleiri hafa dálæti á þessu fallega borði því að á síðunni a-mad-tea-party-with-alis.blogspot.com fann ég m.a. þessar fínu myndir ...

Borð drauma minna

Og talandi um Eero Saarinen, þá er þetta draumaeldhúsborðið. Fallegasta borð allra tíma, hannað af Eero Saarinen árið 1956.

Saarinen stólar

Ég er ansi veik fyrir svona stólum sem eru með gati í miðjunni. Og Saarinen stólarnir tveir, bæði sem Knoll og Vitra framleiða, myndu sóma sér vel hér á Hjarðarhaganum.

Barnastólar á Ebay

Ég rakst á þessa sætu barnastóla á ebay rétt í þessu. Þeir myndu passa fullkomlega inn hjá mér en ég kem bara ekki fleiri barnastólum fyrir ... þannig að ef einhver hefur áhuga þá eru tveir dagar eftir af uppboðinu og engin boð komin.

27.8.08

300 fermetrar á 10 milljónir! - S E L T

Hvern dreymir ekki um að komast í 300 fermetra og að borga fyrir þá einungis 10 milljónir? Jú, kannski þann sem á nú þegar 300 fermetra og nóga peninga, en þannig er ekki farið með mig. Voilá! Gamli barnaskólinn í Hrísey - frábært tækifæri fyrir kjarkmikla einstaklinga og fjölskyldur.

26.8.08

DLM - Don´t leave me

DLM-borðin frá Hay eru hönnuð af Thomas Bentzen (sem hefur starfað með Louise Campbell undanfarin ár) og komu á markað í fyrra. Þessi borð eru sannkallað þarfaþing því þau má nota á víð og dreif um húsið s.s. undir lykla og smádót í forstofunni, sem hliðarborð við sófa, út á svölum, sem náttborð, undir drykk við baðið og svo er hægt að ferðast með þau bæði innan dyra og utan. Þau koma í sjö litum en gula er mitt uppáhald!

25.8.08

Muuto

Muuto er danskt fyrirtæki sem framleiðir allskonar skemmtilega hluti eftir unga skandinavíska hönnuði s.s. Norway says, Claesson, Koivisto og Rune, Harri Koskinen og Louise Campbell. Hér eru því skandinavískir straumar dagsins í dag (og kannski líka Sjöur og PH-ljós framtíðarinnar).

21.8.08

Blandaðir stólar

Ef þér reynist erfitt að velja réttu borðstofustólana þá er lausnin að fá sér bland í poka, kaupa bara eitt stykki af hverri sort. Þannig þarftu ekki að gera upp á milli, heldur leyfir öllum uppáhaldsstólunum þínum að vera með (myndir af síðunni: a mad tea party with alis).

Grass og Pratone

Grasvasarnir frá Normann Copenhagen eru dálítið skemmtilegir og mér skilst að vinsældir þeirra séu slíkar að þær stúlkur hjá Claydies (hönnuðir og frameiðendur) Tine Broksø og Karen Kjældgård-Larsen, anni alls ekki eftirspurn. Þessir vasar minna mig alltaf á Pratone-mubluna sem Giorgio Ceretti, Pietro Derossi og Riccardo Rosso (Gruppo Sturm) hönnuðu árið 1968. Gufram framleiðir enn þetta stykki ásamt mörgum öðrum furðumublum.

20.8.08

Kirkjubekk í svefnherbergið

Ég er dálítið slæm með fatahrúgurnar inni í svefnherbergi og mig grunar að ég sé ekki ein um það. Á síðu Rebekah Sigfrids fann ég voða sæta mynd þar sem að heill kirkjubekkur er kominn inn í svefnherbergi og ég held að það gæti verið eitthvað sem hentaði mér ... gæti líka vel sætt mig við George Nelson-bekkinn sem Vitra framleiðir.

IKEA-sjónvarpsbekkir

Á heimasíðu Rebekah Sigfrids innanhússarkitekts fann ég þessa mynd, þar sem tveir Bonde-sjónvarpsbekkir frá IKEA eru notaðir undir sjónvarpið. Mér finnst þetta koma ótrúlega vel út og því góð lausn á viðráðanlegu verði.

19.8.08

Kommóða Wis-design

Í framhaldi af umfjöllun um Drawerment þá verð ég að benda á þessa kommóðu, en hún vakti heilmikla athygli í Mílanó á sýningunni Salone Satellite í vor. Hönnuðirnir eru sænskar stelpur, Lisa Widén og Anna Irinarchos, en þær kalla sig Wis-design.

Orla Kiely - fallega ferðataskan

Í þessa ferðatösku hefur mig langað mjög lengi og líka svo margt annað frá írska hönnuðinum Orlu Kiely en þar sem hennar dót er alls ekki ódýrt (og núna kreppa) þá lét ég mér nægja að fjárfesta í svona dásamlegri minnisbók og er alsæl með hana. Kisan selur Orlu Kiely á Íslandi.

17.8.08

Drawerment - skúffur á vegg

Tékkneski hönnuðurinn Jaroslav Jurica úr hönnunargrúppunni Hubero Kororo er höfundur Drawerment, sem er skúffusístem sérhannað fyrir skrifstofu hollenska hönnunarfyrirtækisins Demakersvan í Rotterdam. Svona lýsir hönnuðurinn verkinu: "The Drawerment is a small anniversary of 15 years of “Tejo Remy Chest of Drawers” - A piece of art that let loose the ‘rigid’ era of product design at that time. Drawerment is a composition of drawers collected from old office furniture. Flying freely over walls, desks and floors, they break up tight office atmosphere. As a herd, they sometimes group together but naturally go their own way when being used." Á tveimur neðstu myndinni eru svo skúffur Tejo Remy - You Can't Lay Down Your Memory - sem hann hannaði árið 1991 undir merkjum Droog Design.

14.8.08

Arkitektúr í Hong Kong

Ljósmyndarinn Michael Wolf er Þjóðverji, alinn upp í Bandaríkjunum og býr í Kína. Árið 2006 var hann með sýningu í New York sem hann kallaði Architecture of Density og sýndi þar seríu mynda sem teknar voru í Hong Kong. Þetta eru afar heillandi myndir en um leið ótrúlega sorglegar.

Fjölnota ungbarnavagga

Þessi fallega bastvagga frá Re-produkte (sem fæst í Epal) minnir okkur svolítið á Blindrafélagsvöggurnar sem við þekkjum öll, nema hvað þessi er fjölnota! Þegar barnið vex upp úr vöggunni má nota körfuna sjálfa t.d. sem dótakörfu og grindin nýtist svo sem stell undir rugguhest sem fylgir með. Síðan fæst ruggustóll í stíl sem má festa við vögguna, þannig að barnið vaggi með þér. Mjög sniðugt t.d. fyrir magakveisubörn.

Danska Menntamálaráðuneytið

Fyrir þremur árum síðan var Louise Campbell fengin til að endurhanna innviði danska Menntamálaráðuneytisins. Þvílíkt draumaverkefni! Ekki veit ég hvernig er innanstokks í okkar íslenska Menntamálaráðuneyti en ég býð mig hér með fram ef þörf er á breytingum á þeim bæ.

13.8.08

Dönsk hönnun

Þessi fallegi kertastjaki var hannaðar árið 1955 (sama ár og Arne Jacobsen hannaði Sjöuna) af Jens Harald Quistgaard, en hann lést fyrr á þessu ári 88 ára að aldri. Í bókinni Scandinavian Design sem Taschen gaf út er fjallað um Quistgaard og fær þessi stjaki heilsíðumynd - semsagt notaður sem "íkon" fyrir skandinavíska hönnun á síðustu öld. Kertastjakinn er oft fáanlegur í erlendum netverslunum (sem sérhæfa sig í hönnun miðrar síðustu aldar) og þá er hann yfirleitt verðlagður á bilinu 3000-5000 kr. Það má því fá fallega og klassíska hönnun fyrir lítið fé.

11.8.08

Afmæliseldhús

Þessa fínu mynd fann ég í Living Etc. Ég gæti vel hugsað mér þetta eldhús, með þessari stóru og fínu hurð beint út í garðinn og afmælistertu á borðum. Og svo eru fánarnir líka voða fínir.

Blossom & Bill

Þessa skemmtilegu bakka sá ég fyrst í skandinavískri búð í Oxford í fyrra. Fannst mér að þarna værum við mætt, hjónaleysin í öllu okkar veldi - Guðni þó full búlduleitur. Hin sænska Sandra Isaksson á heiðurinn af þessari góðu teikningu en hún hefur einnig gert allskonar aðra sniðuga hluti.